DOC

UPPHAFI

By Vernon Marshall,2015-03-26 12:12
14 views 0
UPPHAFI

Í UPPHAFI

     Þessi bók um Hrafn Gunnlaugsson er í eðli sínu samtalsbók, ekki ævisaga, ekki

    rannsóknarblaðamennska. Texti hennar er þó fimmfaldur í roðinu hvað formið varðar. Meginþunginn felst í "lotunum"; þær eru fyrstu persónu frásögn Hrafns en byggðar á samtölum okkar undanfarna mánuði. Hér og þar skjóta upp kolli minnispunktar mínir frá því ég fylgdist með Hrafni að störfum í Stokkhólmi snemmsumars; þeir eru fyrstu persónu frásögn mín og þræða sig um bókina allt til loka. Ég skrifa persónulegan kafla, Eftirmála, um baksvið samstarfs okkar og að lokum eigum við orðastað hvor við annan í Eftirþönkum. Þá er ógetið ítarefnis, nokkurra gagna sem birt eru í sinni upprunalegu mynd, þeim lesendum til fróðleiks sem áhuga hafa. Þetta form helgast af eðli málsins.

    - ÁÞ.

    ÚR MINNISPUNKTUM ÁÞStokkhólmur 27. júní 1994 kl. 21.30: Beðið eftir Krumma. Við höfum farist á mis. Ég sit á ítölskum veitingastað á horninu á Riddaragötu og Nýjubrúargötu og narta í kjúklingarétt sem er jafn sveittur og ég sjálfur. Þótt komið sé að kvöldi þessa fyrsta heita dags sumarsins er enn molla í borginni. Hrafn var væntanlegur frá Íslandi síðdegis og við höfðum mælt okkur mót í síma en eitthvað hefur farið úrskeiðis. Á hótelinu hans neðar í Nýjubrúargötu eru engin skilaboð nema frá mér til hans.

     Hótel Örnsköld er bara dyr í vegg rétt fyrir aftan Dramatenleikhúsið. Þetta litla hótel tekur ekki á sig mynd fyrr en komið er upp á aðra hæð. En þótt það láti lítið yfir sér er það orðið dvalarstaður allmargra Íslendinga. Nokkrum dögum áður hitti ég í samkvæmi starfsbróður Hrafns, Lárus Ými Óskarsson. Hann sagðist vera að flytjast búferlum til Stokkhólms, uppgefinn á basli og verkefnaskorti í faginu á Íslandi. Þar hafa þeir löngum átt í erjum, Hrafn og Lárus Ýmir, í togstreitu fylkinganna í íslenskri kvikmyndagerð. En báðir eiga þeir allsterkar rætur í Svíþjóð enda menntaðir þar og hafa gert þar kvikmyndir. Og Lárus Ýmir hefur þegar fengið næg verkefni í sínu fagi í Stokkhólmi, meðal annars hjá öðrum helsta stuðningsmanni Hrafns í Svíþjóð, Ingrid Dahlberg, yfirmanni dagskrárgerðar hjá sænska ríkissjónvarpinu. Á meðan hann bíður eftir íbúð fyrir sig og fjölskyldu sína býr hann á Hótel Örnsköld. Mér finnst það kyndug tilhugsun að þeir Hrafn kynnu að hittast þar í morgunmatnum.

     Hrafn er einnig að fara að vinna fyrir Svía. Eftir tvo daga stendur til að taka upp atriði í viðamikinn sjónvarpsþátt hans um eitt ástsælasta tónskáld Svía og söngva hans - átjándu aldar manninn Carl Michael Bellman. Einkennilegt að Svíar skuli treysta Íslendingi fyrir slíku verki, hugsa ég með mér og sé hvar Hrafn kemur labbandi upp Nýjubrúargötu, sólbrúnn og sumarklæddur. Hér er hann kannski á meiri heimavelli en á Íslandi, þar sem hann gengur vart upp götu án þess að allt fari á hvolf. Ég sé ekki betur en vegfarendur haldi ró sinni, lögreglumenn sjást ekki og bifreiðar aka árekstralaust. 1. LOTA LYKTIN AF LÍFINU - OG DAUÐANUM Ég man kalda og stama snertinguna við blautt bakið og bossann en umfram allt man ég lyktina, sem var kæfandi sterk, væmin og beisk í senn. Í minningunni byrjar lífið með lyktinni af vaxdúk og snertingu við hann. Hann var hafður undir mér þegar skipt var um bleyju. Þegar mér var velt til og frá á dúknum fann ég nánast bragð að þessari lykt; bragðið var eins og að fá upp í sig málningu og sykur í einu. Þetta var eins konar bragðalykt, eins og dóttir mín segir.

     Skynjun mín á umhverfinu hefur alla tíð byggst á lykt; fyrir henni hef ég mest næmi og minni. Ég held ég dæmi fólk meira eftir lykt en nokkru öðru; ástæðan fyrir því að mér geðjast frekar að einni manneskju en annarri er sú að ég finn betri lykt af henni. Sumir skynja tónlist einvörðungu sem mismunandi tegundir af hávaða á meðan aðrir nema flókið víravirki af tónum og hljóðfærum og blæbrigðum; ég hef hitt fólk sem er svo næmt á tónlist að það getur talið fjölda fiðla þegar stroksveit kemur inn í sinfóníu. Komi ég inn í tómt herbergi, þar sem verið hafa þrjár til fjórar manneskjur mér kunnugar, veit ég hverjir hafa verið þar, jafnvel þótt fólkið sé farið fyrir nokkurri stundu. Ég get greint á milli lykta jafnvel betur en milli radda.

     Kvikmyndin nýtir fleiri skynsvið en aðrar listgreinar. En hana vantar lyktina, bragðið og snertinguna. Mest sakna ég lyktarinnar. Í litlum sjónvarpsþætti frá Filippseyjum segi ég um sorpfjallið mikla Smoky Mountain að enginn geti skynjað dýpt mannlegrar eymdar þar án hinnar hrikalegu lyktar. Lyktin breytist eftir því hversu hátt sól rís á himni, verður stækur fnykur um miðbik dagsins því þá sýður æ meir í sorpfjallinu.

     Ég er oft dálítið lengi að vinna úr lykt; ég finn vonda lykt, svo líður hálftími og þá kasta ég upp. Undir máltíð í fyrradag var Tinna systir mín að segja mér frá stelpum sem unnu í frystihúsi á Vestfjörðum. Þær höfðu tekið hringormana úr flökunum og sett þá í ílát. Og til að ganga fram af henni drukku þær úr ílátinu. Ég þekki lyktina af hringormum og kastaði upp í miðri máltíð.

     Þegar við vorum að gera stuttmyndina Lilju eftir smásögu Halldórs Laxness tókum við eitt atriðið í líkhúsi. Við höfðum tekið kælinn úr sambandi því álagið á ljósatöflunni vegna kvikmyndaljósanna var svo mikið. Við það hitnaði smám saman í herberginu. Líkin, sem lágu þar stirðnuð, fóru að leka út af bekkjunum og hreyfa sig og missa vessa. Þá gaus upp versta lykt sem ég hef fundið um ævina. Orðið "skítafýla" kemst trúlega næst því að lýsa henni. Ég kastaði upp á aðra viku á eftir ef hugsunin bar mig aftur í líkhúsið og ég þoldi enga lykt sem minnti á hana, til dæmis af súrri mjólk og umfram allt rotnandi kjötmat þótt hún hafi aðeins brotabrot af lyktarskalanum og styrkleikanum. Þessi

    lykt var eins og sag, eins og blési þurru trésagi í gegnum heilann. Ég fann hvernig hún setti hreinlega af stað efnabreytingar inni í mér.

     Efnabreytingar innra með fólki hafa orðið mér umhugsunarefni. Þegar ég var á Filippseyjum 1987, til að skrifa og skoða eldgosið í Pina Tubo, kynntist ég einum þekktasta rithöfundi þar í landi, Francisco Sionil José. Hann sat í stofufangelsi á tímum Marcosar, upphaflega kommúnisti en orðinn sósíaldemókrat í seinni tíð, og vinnur nú að því að koma upp lýðháskólum um allar eyjarnar. Hann er formaður PEN-klúbbsins og rekur bókaverslun á einni aðalgötunni í Manila, Padre Faura. Ég hitti hann þar í búðinni og við urðum mátar og borðuðum stundum saman.

     Einu sinni ræddum við skilning Austurlandabúa á efnishyggju en mér hafði fundist hann mikill efnishyggjumaður af Asíumanni að vera. Ég var að gera grín að svokölluðum trúarlæknum eða "faith-healers" sem grassera á þessum slóðum. Allt í einu fann ég andrúmsloftið á milli okkar breytast. Hann varð allur inn undir sig og skrýtinn til augnanna. Mig fór að gruna að ég hefði talað óvarlega, fékk á tilfinninguna að hann hefði skipt um skoðun á mér og teldi mig grunnfærinn og kannski fordómafullan persónuleika.

     Hann sagði: Úr því þú vilt endilega fara inn á þessa braut skal ég segja þér litla sögu. Þegar ég var í stofufangelsinu kom í ljós að ég var með æxli í maganum. Ég fór til menntuðustu lækna og sérfræðinga sem sögðu að æxlið væri farið að breiðast út. Læknarnir töldu að um seinan væri að skera mig upp. Þá fór ég til Jun Labo, trúarlæknis og síðar meir borgarstjóra í Baguio, borgar á Norður-Filippseyjum þar sem Kortsnoi og Kasparof háðu heimsmeistaraeinvígi í skák fyrir nokkrum árum. Hann stakk berri hendinni inn í magann á mér og sleit úr mér æxlið án þess að nokkurt sár eða ör væri eftir. Síðan hef ég verið heill heilsu.

     Ef ég hafði áður fallið í áliti hjá þessum merkilega rithöfundi þá féll hann ekki minna í áliti hjá mér við þetta. Á ný hafði myndast jafnvægi milli okkar; við vorum báðir fallnir hvor í annars augum. Hann skynjaði það og sagði: Þú ættir að spara þér þetta glott. Þú hefðir gott af að hitta Ramon Jun L. Labo. Ég skal kanna hvort ég geti komið á fundi með ykkur.

     Nokkru seinna hringdi hann og sagði að Labo hefði fallist á að ég kæmi í heimsókn. Ég ók í tvo daga í norður frá Manila til Baguio sem er uppi í fjöllum. Þar vex mikið af furutrjám sem gera borgina ögn norræna. Í útkanti hennar stendur eins konar kastali uppi í fjallshlíð og marmarahof við hliðina. Þar býr Labo borgarstjóri og rekur trúarlækningamiðstöð. Borgarstjórastarfinu sinnir hann svo milli tíu og tvö á daginn. Í kjallara hofsins er stór salur sem er líkt og hönd í laginu, með fimm göngum sem liggja eins og fingur út frá miðjunni, og margar höggmyndir af goðum og trúarleiðtogum, Kristi, Búdda og fleirum sem ég kann ekki að nefna. Þegar mig bar að garði var nýkominn stór hópur af japönskum sjúklingum og var okkur öllum vísað til svefnherbergja.

     Um fimmleytið um nóttina var ég vakinn og leiddur niður í hofið. Þar var loft reykelsismettað og spilað á alls kyns hljóðfæri bak við tjöld svo hljóðfæraleikararnir sáust ekki. Ég og aðstandendur sjúklinganna, sem komnir voru til að leita sér lækninga, biðum í tvo-þrjá tíma umvafðir músík og reykelsum. Skyndilega var dregið frá fyrstu göngunum. Þar lá sjúklingur á bekk. Labo birtist á stuttermabol, gekk að sjúklingnum, fór höndum um hann í tvær-þrjár mínútur og allt í einu spýttist upp blóðbuna. Aðstoðarmenn hans snöruðust að sjúklingnum og hann var þurrkaður, Labo hvarf. Síðan birtist hann í hverjum göngunum af öðrum og framkvæmdi aðgerðir með sama hætti. Allt í allt tók þetta ekki meira en fimmtán-tuttugu mínútur. Að lokum kom Labo fram og talaði við aðstandendur hvers sjúklings fyrir sig í hálfum hljóðum, þreifaði á þeim og blessaði og virtist slíta eitthvað úr þeim öllum. Fyrir hverja aðgerð var mér sagt að sjúklingur borgaði fimm þúsund dollara (um 360.000 ísl.kr.) sem ég treysti mér þó ekki til að staðfesta upp á eyri. En með gistikostnaði, ferðum og öllu gæti ég trúað að hver aðgerð kostaði um 10.000 dollara.

     Smám saman kynntist ég Labo sjálfur og okkur féll vel að spjalla saman. Hann reykti mikið, var sífellt með sterkar Camelsígarettur í munnvikinu og drakk töluvert líka, ævinlega Seagramsviskí. Hann lyktaði eins og niðursoðnar plómur. Mér fannst dálítið skrýtið hjá svo heilögum manni og heilsulækni að keðjureykja. Labo er á mínum aldri og fas hans minnti mig skemmtilega á Davíð Oddsson; þéttholda með liðað svart hár, mikinn húmor og gífurlegan persónuleika svo loftvogin nánast breyttist þegar hann kom inn í herbergi.

     Síðasta kvöldið mitt sátum við að spjalli og ég sagði: Heyrðu, segðu mér nú eins og er, þetta er auðvitað allt blekking, hefurðu ekkert samviskubit yfir að græða stórfé á fársjúku fólki með töfrabrögðum, - með því að spila á trúgirni þess? Þá sagði hann: Hvað er blekking? Ef þú ferð á bar, hittir konu og verður hrifinn af henni, er það þá blekking? Veistu hvað gerist inni í þér? Adrenalínið, heiladingullinn, allar efnabreytingarnar sem fara í gang? Eru þær blekking? Þú ferð fram úr raunveruleikanum, verður allt í einu ofsalega bjartsýnn og kátur og þér rís hold og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta hafa allir upplifað á sjálfum sér í einhverri mynd og viðurkenna. Líkaminn stýrist ekki bara af lyfjainnspýtingum heldur líka af hugarástandi. Það sem ég geri er að búa til hugarfar sóknarinnar. Ég bý til hugarfar sem eflir ónæmiskerfið og keyrir það aftur í gang. Ég endurvek vilja og trú sem eru horfin hjá sjúklingi eftir að vestræn vísindi hafa úrskurðað hann dauðvona. Og þótt margir af sjúklingum mínum deyi, eins og spáð hafði verið, deyja þeir með ljósglætu og von. En aðrir ná að vinna á sjúkdómnum með orku hugans, sem

    setur ný efnaskipti í gang, eins og ástin nær að vekja hjá okkur aftur lífslöngun. Ég hef dæmi um að menn, sem komu hér í meðferð, hafi náð fullri heilsu aftur, menn sem voru dauðans matur.

     Ég verð að viðurkenna að eftir þetta samtal sá ég þennan mann í allt öðru ljósi og

    trúarlækningarnar líka. Í raun og veru hafði þetta slík áhrif á mig að ég hef séð lífið í allt öðru ljósi síðan. Ég er eilíflega þakklátur fyrir að hafa kynnst báðum þessum filippseysku mönnum, hvorum á sinn hátt. Þeir hafa ekki aðeins sýnt mér fram á að beygjan frá braut dauðans yfir á braut lífsins getur komið að innan jafnt og að utan, heldur einnig hvernig við vanmetum allt of oft þau áhrif sem viljinn getur haft á öll innri efnaskipti okkar, hvernig hugarástandið getur breytt lífi okkar. Og hvernig ytri áreiti á skynfærin geta breytt hugarástandinu.

     Tökum lyktina áfram: Í mínu tilfelli veldur hún þannig efnabreytingum innra með mér að hún getur ráðið úrslitum um hvernig mér líður. Ömmur mínar höfðu hvor sína lyktina sem ég man enn þann dag í dag, þótt þær sómakonur séu báðar löngu látnar. Þessi lyktarupplifun er svo sterk að þegar ég sat í rútu fyrir tveimur árum og heyrði úr útvarpinu gamalt danskt lag sem heitir "Nu har vi jul igen" fylltist rútan af angan af andarsteik og lyktinni af Ellen föðurömmu minni, sem var dönsk. Amma Ellen endaði ævinlega dansinn í kringum jólatréð með því að syngja þetta lag. Hennar lykt var eins og af fjólum, vatnskennd, fersk og tær. Lyktin af móðurömmu minni, Maríu Víðis, var hins vegar konfektlykt; í henni var bæði öryggistilfinning og munúð. Ég sótti í þá öryggistilfinningu og kúrði oft í rúminu hjá henni. Hún hafði heitar hendur en amma Ellen frekar svalar hendur.

     Við höfðum þýska vinnukonu á Leifsgötu 15, þar sem við bjuggum fyrstu átta æviár mín. Af henni stafaði hvítlaukslykt en hvítlaukur var ekki notaður hér á þeim árum. Svitalyktin af henni var öðruvísi en okkar vegna þessarar blöndunar við hvítlaukinn. Lykt hennar býr enn í vitum mínum. Og ég gat þekkt hana langar leiðir á lyktinni, og á því að hún gekk berfætt í tréskóm; skórnir lyftust frá ilinni þegar hún gekk og eins og smjöttuðu af því að hún var rök á fótunum. Ég man að þegar hún tók mig upp og setti mig við handarkrikann á sér lá mér við köfnun.

     Móðir mín segir að ég hafi sem krakki sífellt stungið nefinu ofan í öll blóm sem ég komst í; var kallaður blómastrákurinn af krökkunum í hverfinu. Ég gekk um eins og hvolpur og þefaði af öllu. Aska og eldur drógu mig að sér eins og segulstál. Og ég smakkaði, tróð öllu upp í mig. Eitt sinn er ég var um þriggja ára var ég fluttur í ofboði á slysavarðstofuna með sminkliti, sem móðir mín notaði við förðun í leikhúsinu, fasta á kafi í nefinu á mér.

     Besta lykt sem ég finn er af konum og blómum. Sú besta er af Eddu, konunni minni. Kannski þess vegna hef ég orðið ástfangnari af henni en öðrum konum. Hún ilmar eins og kirsuber; lyktin hennar er bleik og höfug.

    2. LOTA ÞRIÐJA AUGAÐ Ég hef aldrei grátið mikið; það stendur einhvern veginn ekki nærri mér. Móðir mín hefur sagt að ég hafi ekki verið eins og önnur börn að því leyti að ég hafi ekki grátið heldur gargað.

     Mér hefur alla tíð hætt til að "intellektúalísera" tilfinningar mínar, beita skynseminni á þær. Það getur verið bæði kostur og galli. Það getur hjálpað manni að lifa af kringumstæður sem myndu brjóta aðra niður. En um leið er mér næsta ógerningur að gefa mig allan tilfinningalega; þegar mig hefur langað til að sleppa tilfinningum mínum lausum stíga vitsmunirnir á bremsuna.

     Það er nánast sama hvað ég geri: Ég horfi á það með þriðja auganu. Segi kannski við sjálfan mig: Nú ertu reiður. Í stað þess að vera bara reiður. Eða: Nú er ég að elska. Geri ég það svona? En merkilegt! Ég skoða eigið atferli eins og ofan úr loftinu með hlutlægu myndavélarauga.

     Ég vakna á morgnana, lít í spegil og segi: Þú líkist mér. Skoða mig rannsakandi og spyr sjálfan mig: Hver er þessi framandi maður í speglinum? Stundum kem ég svo ókunnugur að speglinum að ég hrekk í kút. Stundum stendur mér hreinlega stuggur af speglinum.

     Ég horfi á sjálfan mig horfa á mig. Þetta gerist jafnvel á augnablikum þegar síst skyldi. Ég get verið að gera samning við einhvern mann eða æfa með leikara. Ég get verið dauðadrukkinn og þá allt í einu búmm: Kemur einhver vinkill fljúgandi og það snarrennur af mér hið innra þótt ég sé áfram drukkinn út á við. Í dýpstu tilfinningatengslum hef ég upplifað þessa yfirveguðu hlutlægni. Kannski kemur hér til leikstjórinn í mér. Allt í einu klippi ég úr nærmynd í víða mynd. Eins og einhverjar viðvörunarbjöllur fari að hringja. Einhver skynjun á hættu. Reykskynjarinn fer að ýla.

     Þessi hæfileiki eða eiginleiki hefur oft hjálpað mér, sérstaklega í starfi mínu. Ég næ að skynja heildarmynd í stað þess að einstakir hlutar hennar afvegaleiði mig. En hann getur aftur á móti flækt einkalífið. Valdið því að ég taki þar á vissum málum með hönskum; viðbrögðin verða sótthreinsaðri.

     Þetta er bæði meðfætt og áunnið; aðstæður verða til þess að ákveðin eðliseinkenni styrkjast. Sem smábarn lenti ég strax í forystuhlutverki. Ég er elstur af fjórum systkinum sem fæddust með tveggja ára millibili - Þorvaldur, Snædís og Tinna. Móðir mín, Herdís Þorvaldsdóttir leikkona, var úti að vinna í leikhúsinu flest kvöld. Faðir minn, dr. Gunnlaugur Þórðarson, er lögfræðingur og þótt hann hafi ævinlega veitt mér skjól er hann eins og hann er; hann hefur alla tíð verið mikið á ferðinni, á jafnvel enn erfiðara með að vera kyrr en ég sjálfur. Sonardóttir hans sagði eitt sinn: Afi var farinn rétt áður en hann kom! Þetta á trúlega að einhverju leyti við um mig líka.

     Mér var snemma falið að passa systkini mín, var varla mikið eldri en fjögurra ára þegar mér var gerð grein fyrir því að ég bæri hreinlega ábyrgð á þeim. Á kvöldin, þegar mamma var að vinna í leikhúsinu og pabbi kannski á fundi, var það mitt hlutverk að koma þeim í svefn og hringja í foreldra mína ef þau vöknuðu eða önnur vandamál komu upp. Þetta varð til þess að ég hef vanið mig á að sofa laust. Ég hef verið á vakt alveg frá því að ég var smákrakki og er það enn; ég stend vörð um það sem mér þykir vænt um. Fyrir bragðið fékk ég ekki að vera jafn mikið barn og ég hefði viljað eða þurft.

     Ég held að þetta hafi mótað mig meira en flest annað. Allt frá blautu barnsbeini hef ég haft á mér vara, verið á vakt gagnvart umhverfinu, kannski tortrygginn. Þetta birtist líka í mikilli rannsóknarþörf. Móðir mín segir að Örk, yngsta dóttir mín, sem er tveggja ára, sé nánast lifandi eftirmynd mín. Ef hún sér klukku sem gengur fyrir rafhlöðu hættir hún ekki fyrr en hún hefur opnað hana og skoðað rafhlöðuna, ef hún sér segulbandssnældu hættir hún ekki fyrr en hún er búin að rífa segulbandið út úr henni. Ég finn hjá henni, eins og mér, þessa ofvirku þörf fyrir athafnir daginn út og daginn inn. Og það er fullt starf að fylgjast með henni.

     Æskuheimili mitt tók svip af andrúmslofti eftirstríðsáranna. Móðir mín kom úr mikilli fátækt. Missti föður sinn ellefu ára gömul. Hún hefur sagt mér að fátæktin hafi verið slík að þær systurnar hafi þurft að skiptast á að nota sama kjólinn og þá hin að liggja í rúminu á meðan. Stundum var aðeins til ein kartafla til að fæða alla fjölskylduna. Ég held að þessi reynsla, sem okkar kynslóð getur tæpast skilið, að þurfa nánast að ganga með betlistaf, hafi haft svo djúp áhrif á hana að hún sjái allt lífið í ljósi hennar. Að komast í sæmilegar álnir og verða þekkt og viðurkennd listakona varð því fyrir hana miklu mikilvægara en marga aðra; í því fólst sigur á lánleysi og höfnun.

     Ég var lystarlítill sem krakki, mjög grannur og nettur. Lyktnæmi mitt olli því að ég gat misst alla matarlyst við lykt sem ég fann af ákveðnum fæðutegundum. Einkum átti þetta við um fæðu úr dýraríkinu, kjöt en umfram allt fisk sem ekki var glænýr; grænmeti og ávexti átti ég í engum vandræðum með. Þetta áleit móðir mín vera kenjar. Hún hafði búið við hungur í æsku og þakkaði fyrir hvern bita sem hún fékk. Ég var elsta barnið og átti að sýna gott fordæmi. Ég var því látinn sitja kyrr við matborðið og klára af disknum þótt ég gæti ekki komið meira niður. Þá lærði ég að koma fæðunni undan án þess að borða hana, tróð henni inn í rimlana á ofninum, fyllti munninn og fór svo á klósettið og hrækti út úr mér eða var með dós í vasanum sem ég smátróð matnum ofan í. Ég kveið fyrir matmálstímum og gat aðeins gengið í gegnum þá með því að koma mér upp vel útfærðu kerfi til að losna við matinn á allan annan hátt en ofan í magann. Þetta var sársaukafull reynsla sem vakti oft á tíðum hjá mér djúpa sektarkennd. Ég hef gætt mín á því við mín börn að beita þau aldrei hörðu, aldrei, sama hvaða "kenjar" eru hafðar í frammi, þótt ég líði síður óhemjugang. Íslendingar kunna ekki að njóta þess að borða; þeir borða til að fylla magann, til að geta unnið meira en ekki vegna ánægjunnar.

     Þegar vinir mínir komu heim skammaðist ég mín stundum fyrir að móðir mín gat hreinlega ekki séð mat leifað eða hent; hún borðaði jafnvel sjálf það sem við skildum eftir á diskunum þótt hún hefði enga lyst á því. Eða þá að afgöngum var pakkað inn og þeir geymdir í ísskápnum; ekki mátti henda þeim fyrr en þeir voru úldnir eða skemmdir. Þegar við bræðurnir eltumst gerðum við stundum rassíu í því að hreinsa úr skápnum; enn þann dag í dag finn ég mánaðargamla afganga í ísskápnum hennar þegar ég kem í heimsókn. En auðvitað er þetta aðeins gert af umhyggju, samhaldssemi og virðingu fyrir lífsbrauðinu. Sama á við um föt: Í hennar heimi er ekki hægt að henda flíkum. Hún saumaði ný föt á okkur krakkana upp úr gömlum, langt fram eftir aldri. Á heimilinu gekk hún fram í því af ótrúlegri hörku og dugnaði að hafa allt í röð og reglu, hreint og strokið. Stundum varð harkan nánast ómennsk. Hún gekk óhölt yfir sviðið í leikhúsinu þótt hún væri fótbrotin. Væri lífið metið í dugnaði, sjálfsaga og afköstum fengi hún tíu. Hún gengur í gegnum múrveggi ef því er að skipta - og því miður oft af því að hún gleymir að leita að dyrum.

     Einkenni móður minnar og föður togast á í mér. Í móður minni finn ég helst þau

    skapgerðareinkenni sem mér finnst óþægileg í eigin fari: Kröfuhörku gagnvart öðrum og sjálfum sér, sem getur orðið svo öfgafull að maður neyðir sig til meinlætalífs sem engin skynsamleg ástæða er fyrir. Stundum felst í þessu styrkur, eins og við kvikmyndatökur; þá lifi ég nánast spartönsku lífi. Ég held að sú hlið á mér, sem er skemmtilegri, komi meira úr föðurættinni, þótt vissulega séu sómamenn og húmoristar í ætt móður minnar. En ég líkist þeim síður, sé mig frekar í spegli í fjölskyldu föður míns. Og hrifnæmið. Það er tiltölulega auðvelt að taka þátt í gleði föður míns og hrifningu. Móðir mín á erfiðara með að hrífast innilega - eða kannski er það þriðja augað, sem heldur aftur af henni. Hún horfir gagnrýnum augum á allt. Faðir minn er örlátur maður á sjálfan sig og það sem hann á, stundum óþægilega örlátur og fljótfær, því fólk hefur misnotað örlæti hans. Hann má ekkert aumt sjá og hefur tekið á sig fyrir aðra erfiðleika og leiðindi langt umfram það sem venjulegt getur talist. Móðir mín er samhaldssöm á tilfinningar sínar vegna mótunar í æsku. Hún tekur ekki áhættu; hún vill hafa sitt á þurru. Sjálfsagi hennar er nánast þýskur í styrkleika sínum og það ekki í neikvæðri merkingu.

     Í þau fáu skipti sem mér var refsað líkamlega var ég flengdur eða lokaður inni í myrkrakompu. Ég held að foreldrar mínir hafi á seinni árum séð eftir þessum refsingum. Hroðalegustu minningar úr æsku minni eru þær heiftúðugu hugsanir sem þessar refsingar kveiktu. Heift mín gat orðið slík að ég hugsaði

    með mér: Jæja, nú fer ég bara og drep mig. Þá sér mamma eftir því hvað hún hefur verið leiðinleg við mig og ég mun hlakka yfir því!

     Þótt ég gréti ekki oft minnist ég þess að eina nóttina vaknaði ég og grét hátt, bara til að vekja á mér athygli. Til að gera senuna sem áhrifamesta hellti ég vatni úr blómavasa, sem stóð í glugganum fyrir ofan rúmið, yfir koddann. Einu áhrifin voru þau að koddinn varð ógeðslega þefjandi af fúnum blómum og ég uppgötvaði að blaðlýs höfðu verið í blómunum. Móðir mín hafði verið að leika mjög stórt og erfitt hlutverk fram að miðnætti og vaknaði dauðþreytt við öskrin. Viðbrögð hennar voru þau að segja að ég skyldi ekki vera með þennan óhemjuskap. Hún spurði hvað þetta ætti að þýða að vorkenna sjálfum mér svona; ég skyldi gera svo vel að hætta þessu voli. Þegar svona er talað brynjast maður upp og biður ekki aftur.

     Hún vildi að ég nyti þess sem hún hafði farið á mis við sem krakki. Hún lét mig fara í danstíma þvert gegn vilja mínum; hana hafði dreymt um að læra að dansa og vildi að sá draumur rættist í mér. Þegar ég þáði ekki þetta góða boð var ég agaður til að þiggja það. Móðir mín hefur alla tíð verið að koma vitinu fyrir alla aðra en sjálfa sig. Hún er enn þann dag í dag að reyna að ala mig upp. Ef hún kemur í heimsókn til mín byrjar hún strax að setja út á flest af því sem ég geri og vill vísa mér til betri vegar og heilbrigðari lífshátta. Núna finnst henni ég ekki vera nógu trúaður, bera ekki tilhlýðilega virðingu fyrir guði. Innst inni veit ég að þetta er ekkert nema væntumþykja sem brýst svona út, en ansi getur sú væntumþykja verið lýjandi.

     Móðir mín er mikil listakona og ég met og virði hana sem slíka, og á seinni árum er ég farinn að sjá þetta allt í öðru ljósi; ég skil hana betur og þykir mjög vænt um hana. Ég er þakklátur fyrir það sem hún hefur gert fyrir mig. Enginn flýr uppruna sinn. Á uppvaxtarárunum var hún, eins og fyrr segir, upptekin af því að sigrast á kringumstæðum sínum, staðráðin í að brjótast til mennta, verða listakona í fremstu röð og öðlast virðingu í þjóðfélaginu. Og hún vildi að börn sín hegðuðu sér í samræmi við það. Við vorum börn Herdísar leikkonu. Við vorum til sýnis sem slík. Hún keypti stundum í útlöndum nýjustu barnatískufötin á okkur til að ganga í á tyllidögum. Það var sannarlega vel meint en varð til þess að maður var lagður í einelti, kæmi maður í þessum "búningi" á jólaskemmtun í skólanum; þá reyndi ég að týna fötunum eða eyðileggja þau, rífa þau og segjast hafa lent í slysi. Árum saman var ég að berjast við þessa átroðnu mynd sem leiddi til þess að ég gerði byltingu strax og ég varð táningur, braust um svo mér héldu engin bönd. Við Vilmundur Gylfason vorum sagðir ódælustu unglingar í öllum Vesturbænum, eins og berserkir, sem urðu óðir af sveppaáti. En við átum ekki sveppi, heldur nýjar hugmyndir úr öllum áttum og þær hráar: Niður með þjóðfélagið! Niður með allt!

     Þegar við fluttumst vestur í bæ, á Dunhagann, fékk ég herbergi fyrir sjálfan mig í kjallaranum eftir nokkur ár uppi á lofti. Ég flutti í kjallarann á þrettánda ári og gekk þá í Hagaskólann. Af einhverjum ástæðum málaði ég herbergið svart; ég hafði enga fyrirmynd, vildi bara mála veggina kolsvarta - kannski vegna þess að hrafninn er svartur - og sankaði að mér alls konar dóti eins og hrafn í hreiður sitt, kindabeinum, bílnúmerum, reka úr fjöru, uppþornuðum blómum, brotajárni. Þarna ægði saman ótrúlega dularfullum hlutum - og ég hef raunar alla tíð haft nautn af safna í kringum mig dularfullum hlutum. Og þetta var MITT HERBERGI og samkomustaður allra helstu töffara Vesturbæjar; Vilmundur Gylfason, Davíð Oddsson, Atli Gunnarsson, Örn Þorláksson, Helgi Gunnarsson, Gísli Örn Lárusson, Þórarinn Eldjárn, Magdalena Schram, Sigurður Pálsson, Guðbjartur Ólafsson, héldu þar til meira og minna og stundum kom Ögmundur Jónasson líka. Móðir mín var ekki alltaf hrifin af þessu herbergi en ég fékk að vera þar í friði; hún hafði í svo mörg önnur horn að líta. Herbergið var mitt móðurskaut og mér leið þar vel. Ég safnaði blóðbergi og jasmínu og fyllti herbergið af þessari yndislegu villilykt. Við fengum að vera út af fyrir okkur að minnsta kosti til miðnættis þegar móðir mín kom heim úr leikhúsinu því faðir minn er frjálslyndur maður í sér. Hann gerði við mig samkomulag, þegar ég var þrettán ára, um að færi ég ekki að reykja gæfi hann mér þrjár brennivínsflöskur á ári, eina á gamlárskvöld, aðra á afmælinu mínu og þá þriðju um verslunarmannahelgina. Ég tók þetta svo alvarlega að ég reykti aldrei neitt að gagni sem unglingur. Og hann stóð við sitt. Menn segja stundum að í mér búi ásatrúarmaður. Að einu leyti er það rétt; gefi ég loforð þá stend ég við það, loforðið brennur á mér og byggir upp skuldbindingu innra með mér sem ég losna ekki við. Ég er eins og bólusettur gegn svikum. Þess vegna er ég spar á loforð.

     En sumsé, herbergið var minn griðastaður. Þegar ég fór til háskólanáms í Stokkhólmi gekk ég út frá því að herbergið yrði á sínum stað þegar ég kæmi til baka. Kannski var það tilætlunarsemi og eigingirni. En þegar ég kom heim hafði móðir mín ákveðið af hagsýni sinni að ekki væri hægt að láta heilt herbergi standa autt, rutt öllu mínu dóti út og leigt. Þetta var áfall fyrir mig. Skapaði óöryggi og rótleysi innra með mér. Síðan hef ég eiginlega ekki getað fundið mér fastan samastað: Íbúð á Hagamel, síðan önnur á Brávallagötunni, svo hús í Laugarnesi. Það er einna helst að sumarbústaður fjölskyldunnar við Elliðavatn hafi orðið einhvers konar miðpunktur í lífinu. Þar hef ég getað verið einn. Þar hef ég getað talað við trén, sem ég hef gróðursett hvert vor, allt frá því ég var átta eða níu ára, og veita mér mesta hvíld og hugarró. Og þar er lyktin af náttúrunni, römm og sæt; brunalykt af hrauni og jörð í eilífum umbrotum, eins og úr sári.

     Sem krakki fékk ég meira af gagnrýni, uppfræðslu, kröfum og ögun en því sem ég hafði ekki síður, og kannski meiri, þörf fyrir, ást og öryggiskennd. Mig skorti ekki neitt hið ytra og auðvitað var

    uppeldið miðað við það sem foreldrar mínir töldu að væri mér fyrir bestu. Ég held að ég sé enn þá að reyna að vinna þetta upp. Trúlega er þetta eins með alla mannskepnu - hún leitar að ást eða hlýju fremur en skynsemi og köldum rökum.

    3. LOTA MYNDIN AF AFA Afgerandi veganesti úr uppeldinu helgast af myndlistarást föður míns. Inn á heimilið kom fjöldi myndlistarmanna og á veggjunum héngu málverk, flest eftir Snorra Arinbjarnar og Gunnlaug Scheving. Gunnlaugur borðaði yfirleitt hjá okkur einu sinni í viku, gjarnan maríneraða síld sem faðir minn útbjó oftast, því að móðir mín var að leika. Á meðan nafni hans var að stússa í eldhúsinu sat Gunnlaugur inni í stofu. Á einum stofuveggnum hangir stórt málverk eftir hann sem heitir Skammdegisnótt. Fyrst þegar ég barði þessa mynd augum, sex eða sjö ára gamall, þótti mér hún hallærisleg - einhver belja sem hallar undir flatt með gulan baug um hausinn, blóm þar yfir og vorfuglar, vetrarstjörnur yfir huppnum og svo kona með barn sofandi í reifastranga og geigur í svip hennar. Mér þótti þessi mynd óprýða stofuna svo mjög að ég vildi helst ekki bjóða vinum mínum þar inn. En svo varð ég fyrir opinberun: Ég hef líklega verið níu ára þegar ég settist eitt kvöld hjá Gunnlaugi Scheving, sem var að bíða eftir síldinni inni í stofu, og spurði hvers vegna hann hefði málað geislabaug á beljuna. Hann sagði að saga væri á bak við það. Sjáðu nú til, sagði hann, í gömlu baðstofunum þurfti fólkið að nota hlýjuna af húsdýrunum til að halda á sér hita. Það sem myndin sýnir er móðir sem heldur á barni sínu á kaldri vetrarnótt. Vetrarnótt? hváði ég og horfði á blómin. Líttu á vetrarstjörnurnar á þessum heldimma himni, sagði Scheving: Þær sýna nóttina. Og hann hélt áfram: Barnið sefur í örmum móður sinnar. Kýrin andar á barnið og það finnur í svefninum heitan andardráttinn frá þessu stóra dýri á andliti sínu. Í draumi barnsins breytist kýrin í sól og krýnist gullnum geislabaug. Barnið dreymir vorið og fuglana og blómin. Móðirin er að bíða eftir manni sínum sem er á leiðinni heim og áhyggjurnar sækja að henni á meðan barnið sefur vært. Sérðu þær í svip hennar? spurði Scheving og ég kinkaði kolli.

     Ég skynjaði hvern drátt í svip móðurinnar. Heit mjólkurlykt, rík af rjóma, fyllti stofuna. Ég heyrði þögnina í myndinni rofna af þungum andardrætti dýrsins og gnauði vetrarvindsins á glugganum, sem vorfuglarnir í draumi barnsins sungu í gegnum. Ég gekk inn í þetta málverk um stund fyrir handleiðslu málarans. Þetta var mín fyrsta stóra listræna opinberun, fyrsta stundin undir regnboganum þegar allt sem er ógerlegt verður gerlegt. Síðan hefur þetta málverk fylgt mér eins og fjall um berangur. Ég held að bygging þess eigi sér ýmsar hliðstæður í kvikmyndagerð minni, ekki bara þetta eina málverk, heldur myndstíll Schevings. Ég fæ mér stundum göngutúr niður í Seðlabanka til að horfa á myndina hans þar af karlinum í brúnni; hún er aldrei söm, líkt og veðrabreytingar taki sér bólfestu í olíulitunum.

     Faðir minn hafði líka mikinn áhuga á ljóðlist og þau móðir mín héldu bæði upp á Stein Steinarr, móðir mín þó með öðrum hætti; hennar áhugi var meira upplestur eins og á leiksviði á meðan faðir minn naut ljóða eins og maður sem þefar í flýti af blómi. Ég man þegar hann las fyrir mig kvæðið Bær í Breiðafirði eftir Stein áður en ég var sjálfur sendur þangað í sveit sex ára gamall, í Skáleyjar: Grænt, rautt og gult.

    Og golan þýtur

     í þaksins stráum.

    Tvö fölleit andlit

     með augum bláum

     á eftir mér stara

     í hljóðri spurn:

    Hvert ertu að fara?

     Þetta stutta ljóð virkaði fyrst á mig eins og brandari, en hafði síðar djúpstæð áhrif. Það hefur haslað sér völl í huganum allar götur síðan; það er mynd sem breytist stöðugt eins og ný og ný sviðsetning á sama atriðinu.

     Faðir minn spilaði líka töluvert af músík en hafði aldrei eirð í sér til að setjast niður og hlusta, svo hún frekar síaðist inn í mig úr bakgrunninum. Hann hvatti mig til að læra á hljóðfæri og ég byrjaði aðeins á trommum og básúnu en úr því varð ekkert af viti. Ég hafði ekki þolinmæði og var í þann mund að uppgötva rokkið.

     Sem krakki velti ég ekki mikið fyrir mér stórum eilífðarspurningum eins og: Er guð til? Hvernig byrjaði heimurinn? Er jólasveinninn til? Danska amma lék jólasvein á aðfangadagskvöld og mér þótti ekkert skrýtið þótt jólasveinninn talaði dönsku. Heimilið bauð í sjálfu sér ekki upp á flóknar spurningar. Áhuginn á listum sat í fyrirrúmi og ég er þakklátur fyrir það. En mér voru kenndar bænir og ég fór með þær á kvöldin: Nú legg ég augun aftur, Vertu, Guð faðir, faðir minn og Faðir vor; það veitti mér ákveðna þæginda- og öryggistilfinningu allt fram undir þrettán ára aldur, eins og ákveðin tegund af hugleiðslu og án þess að ég legði mikla merkingu í orðin. Mín hugmynd um guð var sú að mér fannst að hann hlyti að vera eins og risavaxin belja. Nautgripur. Ég hafði séð alþekkta mynd af Jesúbarninu í vöggu í fjósinu og yfir því var stórt kýrhöfuð; ég hélt að það væri guð.

     Trúaruppeldið sem ég fékk hjá föður mínum var nánast eins og í kínverskri forfeðradýrkun. Faðir minn sagði að afi minn, sem var látinn, fylgdist með mér og veitti mér vernd. Ég hef trúað þessu síðan. Þórður afi, sem var yfirlæknir á Kleppi, var mikill andans maður og spíritisti og gat ferðast út úr líkamanum, sagði faðir minn, og ef ég lenti í erfiðleikum gæti ég treyst því að hann héldi verndarhendi

    yfir mér. Þú skalt hugsa sterkt til afa þíns þegar eitthvað bjátar á, sagði hann. Ég hef gert þetta, hugsað um ljósmyndirnar þrjár sem ég hef séð af Þórði afa, í stað þess að leggjast á bæn og tala við einhvern X guð. Kannski er það í þessa reynslu sem grunnhugmynd Hvíta víkingsins er sótt: Að það sé ekki guð sem skapaði manninn heldur maðurinn sem býr sér til guð.

     Það er eitthvað í kristindómi Gamla testamentisins sem er of herskátt fyrir minn smekk. Fyrsta boðorðið, "Ég er drottinn guð þinn og þú skalt ekki aðra guði hafa", gefur í skyn að til séu aðrir guðir og maður eigi að hafna þeim. Búddisminn segir hins vegar eitthvað á þessa leið: Ég er drottinn guð þinn og ef þú ákallar mig heyri ég til þín, hvaða nafni sem þú kannt að nefna mig. Ég ímynda mér að sama hafi átt við um ásatrúna; menn gátu valið úr mörgum guðum en urðu ekki endilega að ávarpa hinn háa; hinir guðirnir voru fulltrúar hans í ýmsum myndum og komu skilaboðum áleiðis. Óðinn gat þannig birst í mörgum gervum. Sama gerir Búdda.

     Samkvæmt kristninni er guð sá sem öllu ræður, refsar mönnunum eftir breytni þeirra eða veitir þeim umbun með eilífu lífi. Þegar ég hugsa til þjáningar barna, sem fá krabbamein og deyja eða eru myrt af geðsjúklingum eða í styrjöldum, spyr ég sjálfan mig hvort sá guð sé verki sínu vaxinn. Er hann ekki mjög vondur verkstjóri? Og ef það skiptir þennan guð miklu máli hvort hann er tilbeðinn eða ekki er hann þá ekki hégómlegur? Eru þetta einkenni á æðri veru, afli sem er æðra mönnunum? Er þetta ekki vera með alla galla mannsins í ýktu formi?

     Það er sagt að guð hafi skapað manninn í sinni mynd. Ef við "fantaserum" með þessa hugmynd áfram má eins spyrja: Er ekki miklu líklegra að djöfullinn hafi skapað manninn í sinni mynd? Maðurinn hefur eytt öðrum dýrum á jörðinni meira en aðrar tegundir, meira en jafnvel sýklarnir. Hann eirir engu lífi, jafnt dýra- sem gróðurlífi. Og eyðir miskunnarlaust sjálfum sér. Ef djöfullinn er til er þá maðurinn ekki afkvæmi hans? Maðurinn er illur í eðli sínu og grimmur. Í eðli mannsins er lítið til sem heitir gæska; ég hef sjaldan séð hana. Svokölluð gæska mannanna er áunnin og tillærð. Vel má vera að mannskepnan beri ást til afkvæma sinna. Sú ást er upphafin eigingirni. Þetta gæti verið mitt kalda mat á manneskjunni sem líffræðilegu fyrirbrigði. Kannski er helvíti hér, einmitt hér þar sem við búum. Fellur skuggi guðs á okkur? Hvað er ljósið? "Lux est umbra dei." Ef dvöl okkar hér er helvíti þá reynir maðurinn að gera þá dvöl eins þolanlega og hann getur. Kannski gerir hann það helst með listinni.

     Ég held að hugmyndir mannsins um guð taki ævinlega svip af þeim örvunar- og deyfilyfjum sem eru til staðar í þjóðfélögunum. Nirvana hjá Indverjum er ópíumástand, Astekarnir í Suður-Ameríku átu eins konar berserkjasveppi og bjuggu til LSD-guði, hugmyndir Miðjarðarhafsþjóða um að ráfa um í Hades er eins og lýsing á áhrifum frá hasspípu; menn svífa um loftkenndir í eftirlífinu. Á Norðurlöndum var áfengi lengi vel eina þekkta örvunarlyfið; í himnaríki ásatrúarmanna lá beint við að æðsta sælan væri að sitja að ómældu sumbli allar nætur, elska valkyrjur og berjast. Kristindómurinn býður upp á himnaríki án langana, án losta; þar fær hinn fátæki maður alsæluna, áhyggjulausa og án mannlegra hvata. Þetta er eins konar andhverfa allra hinna; maðurinn er afmennskaður í himnaríki.

     Fyrir mér eru geðþekkustu trúarbrögðin zen-búddismi, án þess ég aðhyllist þau sérstaklega. Ég kann vel við hugmyndina: Guð er þar sem þú vilt að hann sé. Búddisminn er ekkert að torvelda þá hugsun. Þess vegna hef ég heillast æ meir af Asíu og vanið þangað komur mínar í seinni tíð.

     Ég sýndi þér um daginn tvær styttur sem ég hef út í Laugarnesi; önnur er af Búdda

    skellihlæjandi og hin er af Jesú í slíku þunglyndiskasti með blóðuga þyrnikórónuna að maður verður miður sín af því einu að horfa á myndina. Annars vegar er hugmyndin um guð sem gleðigjafa og sköpunarmátt, hins vegar þessar refsingar og píslir. Ég læt Þorgeir Ljósvetningagoða segja í Hvíta víkingnum: Ég er sáttur við bæði guð og menn. En ef við sættumst á að smíða okkur nýjan guð er brýnt að sá guð verði farsæll en ekki of refsiglaður. Sem sagt: Guð smíðaði ekki manninn, heldur maðurinn guð.

     Ég segi þetta ekki til að upphefja sjálfan mig, síður en svo. Svona horfir þetta einfaldlega við mér. Og samt er ég svo mikið barn í minni trú að ég hugsa til afa míns þegar í harðbakkann slær. Annars ættu menn að tala sem minnst um guð. Flest sem sagt er reynist kokhreysti þegar við stöndum frammi fyrir einföldustu lífsgátu eða á ögurstund.

    ÚR MINNISPUNKTUM ÁÞStokkhólmur 27. júní 1994 kl. 22.15: Hrafn hyggst sýna mér einn af eftirlætisstöðum sínum frá námsárunum, veitingahúsið Káta gaukinn, eða Muntergök, á Götu Ture greifa í nokkurra mínútna göngu fjarlægð frá hóteli hans. Þar er lokað. Kíktu hérna inn um gluggann, segir Hrafn, sérðu borðið þarna? Í miðjum salnum er hringlaga borð á tveimur hæðum; á þeirri neðri snæða menn af diskum sínum en sú efri er snúanleg og á hana eru matarfötin sett. Þetta var mitt borð, segir hann, og bætir við: Ég notaði það sem fyrirmynd að aftökupallinum í Böðlinum og skækjunni!

     Við röltum inn á bar í frönskum stíl á Götu Birgis jarls, Hrafn fær sér kók og segir mér frá Bellmanþættinum. "Þetta er gömul hugdetta," segir hann og stelur frá mér smávindli. "Ég kynntist Bellman ungur. Fyrsta lagið sem ég lærði að spila á píanó var Gamli Nói og þegar ég var tíu ára lék móðir mín í leikriti í Þjóðleikhúsinu um ævi tónskáldsins. Ég sá þetta leikrit að minnsta kosti tíu sinnum og kunni það utanbókar. Þetta var nauðaómerkilegt verk, yfirrómantísk fölsun á ævi Bellmans eftir einhvern Þjóðverja. En ég lifði mig inn í örlög tónskáldsins og þótti þau svo sorgleg að þau héldu fyrir mér vöku kvöld eftir kvöld. Íslendingar þekkja verk Bellmans mjög vel í þýðingum manna eins og Hannesar

    Hafstein, Jóns Helgasonar og Sigurðar Þórarinssonar, lög eins og Svo endar hver sitt ævisvall eða Blessaðir vinir, bræður og systur!

     Á námsárum mínum hérna kynntist ég svo Bellmanhefð Svía og hún er á margan hátt

    uppskrúfuð, rómantísk og stöðnuð, þótt söngvarnir séu enn jafn yndislegir og áður. Árið 1986 eða '87 kynnti ég hugmynd að mynd um Bellman fyrir Klas Olofsson, sem þá var yfirmaður Sænsku

    kvikmyndastofnunarinnar, og hann réð mig til að skrifa handrit upp úr henni. Það ber nafnið Mjólk og vín og fjallar um upprisu tónskáldsins í nútímanum: Japanir eru að grafa fyrir nýju hóteli í miðborg Stokkhólms og upp úr greftrinum kemur steinkista Bellmans. Áður en nokkur fær rönd við reist er tónskáldið horfið úr kistunni, heldur út í hversdagslífið og endurlifir ævi sína í nýju þjóðfélagi. Ég skilaði af mér þykku handriti en ýtti verkefninu svo frá mér vegna anna. Ég efast um að mér rísi hugur til þessa verks í bráð, er orðinn fjarlægur því, en þekktur sænskur handritshöfundur, Rolf Börjlind, hefur fallist á að vinna upp úr frumhandriti mínu. Við sjáum hvað setur, en í millitíðinni er uppi á borðinu þessi sjónvarpsþáttur um Bellman."

    4. LOTA UPPREISN Ég varð, eins og krakkar yfirleitt, snemma meðvitaður um afmælisdaginn minn, 17. júní, því þá fékk ég gjafir. Ég man eftir því að hafa verið tveggja-þriggja ára niðri í bæ í kerru á þessum góða degi. Múgur og margmenni í sparifötum tók á móti mér og fagnaði með skrúðgöngum og blöðrum því að þetta var minn dagur! Og mér fannst það alveg sjálfsagt. Þetta var afmælið mitt og því var öllu því besta tjaldað til. Í þessari yndislegu blekkingu lifði ég til fimm ára aldurs. Þá fórum við pabbi í okkar besta pússi niður á Austurvöll 17. júní. Þar var ég heiðraður með lúðrasveit og blöðrum og sólskinsveðri eins og vera bar. Ég var í sjöunda himni, því aldrei áður hafði minn dagur verið glæsilegri og fallegri. Við faðir minn komum okkur fyrir á stéttinni fyrir framan Alþingishúsið. Þá birtist móðir mín á svölum hússins, klædd í óskaplega flottan leikbúning, að því er mér fannst, og í gervi fjallkonunnar flutti hún ljóð og svo var spilað og sungið. Allt þótti mér þetta vel til fundið og við hæfi. Þegar hreyfing komst svo á mannfjöldann og athöfnin um garð gengin sagði faðir minn: Jæja, líttu nú á hérna fyrir aftan þig. Og ég leit við og sá einhvern mann þar uppi á stöpli. Þetta er Jón Sigurðsson, sagði pabbi, og þú átt afmæli í dag eins og hann. Það er vegna Jóns Sigurðssonar sem við höldum þennan dag hátíðlegan. Ég hváði við. Ja, hann er frelsishetja okkar, svaraði faðir minn, og þess vegna eru það ekki bara við í okkar fjölskyldu sem höldum upp á afmæli í dag heldur allir á landinu.

     Ég fann hvernig afbrýðisemin og reiðin blossaði upp í mér; ég hafði verið sviptur draumi mínum og blekkingu með svívirðilegum hætti. Það var eins og gullöld hefði gengið um garð og kvatt. Þessi minning hefur greipst svo í vitundina að ég gæti sviðsett hana í smáatriðum. Á þessu augnabliki einsetti ég mér í barnslegri bræði að ég yrði að ná heiðrinum af Jóni. Einhvern tíma skyldi 17. júní verða haldinn hátíðlegur mín vegna en ekki hans. Og það getur vel verið að þetta hafi innst inni skilið eftir sig þá sjálfshugmynd að ég yrði að gera eitthvað sem yrði til þess að ég yrði settur á stall.

     Raunverulega held ég að allar götur síðan hafi ég lifað í tilbúnum heimi, mínum eigin heimi, skálduðum heimi. Ævinlega hefur mér fundist ég vera dálítið einn í skynjun minni á umhverfinu og sjálfum mér.

     Þegar ég byrjaði skólanám kom fljótlega í ljós að það var á brattann að sækja: Ég var ekki eins og hinir krakkarnir. Ég var bæði litblindur og lesblindur! Ég á það til enn í dag að rugla saman litum; ég sé allan skollann út úr litaprófum, allt annað en það sem flestir sjá. Lesblindan var hins vegar alvarlegri. Löngu seinna var mér gefin þessi læknisfræðilega skýring: Lesblinda verður til vegna þess að bæði heilahvelin virka samtímis þannig að maður les kannski tvö orð í einu. Sjónminnið var ekkert; ég skrifaði Ýsland með yfsiloni. Ég fór í tímakennslu hjá konu á Laugaveginum til að læra að lesa en gekk bölvanlega. Stundum gat ég lesið einn með sjálfum mér en þegar ég átti að lesa upphátt fyrir aðra rann allt í einn graut. Ef ég skoða sendibréf sem ég skrifaði til vina minna ellefu-tólf ára þá eru þau eins villulítil og eðlilegt getur talist á þessum aldri. En ef kennari las upp: Axlar-Björn æxlaðist yfir öxlina með æxli á öxlinni, gerði ég eintómar villur. Það var eins og ég færi úr sambandi undir álaginu af því að þurfa að skrifa niður eftir upplestri. Foreldrar mínir óttuðust að ég væri seinþroska og sendu mig til sálfræðings.

     Enginn getur trúað því hversu erfið lesblindan var og hvílíku sálarstríði hún olli mér. Afleiðingin var sú að ég hataði skólann. Síðar las ég grein um lesblindu þar sem kom fram, mér til mikils léttis, að bæði Einstein og Leonardo da Vinci áttu við sama vanda að stríða. Þá fór ég að sætta mig við lesblinduna. Ég reyndi jafnvel að telja mér trú um að hún væri sérkenni, sem ég ætti að vera stoltur af.

     Við hliðina á mér í Austurbæjarskólanum í sjö ára bekk sat Arthur Morthens, bróðir Bubba, og við urðum mátar. Hann var sér á parti eins og ég, ekki vegna lesblindu heldur þess hve hann var grannur og beinaber; hann var eins og skreið til Nígeríu. Þeir bjuggu uppi á kvistlofti rétt hjá Sundhöllinni og lifðu við fremur þröngan kost en Arthur var virkilega góður náungi og örlátur á holl ráð. Inni hjá þeim var óskaplega sterk lykt, karamellubónlykt. Þessi lykt var alltaf af Arthuri og þegar ég hitti Bubba aftur tuttugu árum seinna var svona lykt af honum enn þá!

     Mér stendur enn stuggur af gamla Austurbæjarskólahúsinu, þessu gráa fangelsi með sínu kalda malbikaða porti. Mig dreymir stundum þetta hús, að ég hafi fallið á barnaskólaprófinu og sé enn í barnaskóla. Afar óþægilegur draumur.

     Þegar ég fluttist á Dunhagann gekk ég í Melaskólann. Hann var aðeins skárri en

    Austurbæjarskólinn. Séníin í bekknum voru Þráinn Hallgrímsson blaðamaður, Leifur Bárðarson læknir og Guðrún Skúladóttir líffræðingur. Besti vinur minn í bekknum var Vigfús Geirdal, seinna herstöðvaandstæðingur; hann var í uppreisn eins og ég. Aðrir góðir bekkjarfélagar voru Magnús Dalberg og Teitur Gunnarsson. En ég umgekkst ekki þessi bekkjarsystkin náið. Bestu vinir mínir komu frekar úr hverfinu í kringum Dunhagann. Þeir eru flestir látnir núna: Vimmi - Vilmundur Gylfason, lést sviplega eins og flestir þekkja, Gubbi - Guðbjartur Ólafsson, Jóhannessonar, lagaprófessors og forsætisráðherra, lést úr hvítblæði, Atli Gunnarsson, sem varð tæknifræðingur á Neskaupsstað, lést úr beinkrabba, Jón Ármann Hallgrímsson drukknaði í sundlaug í skólaferðalagi í Hagaskóla en Pétur Gunnarsson orti út frá því atviki í Punktur punktur komma strik, Malla - Magdalena Schram, lést í fyrra. Mér varð mjög hverft við þegar ég áttaði mig á því að þau voru öll látin. Ég er nánast einn eftir úr þessum hópi.

     Þetta var hin harðsnúna klíka. Við vorum ekki saman í bekk en gengum saman í skólann. Vimmi og Gubbi komu yfir Suðurgötuna úr háskólahverfinu, löbbuðu niður Hjarðarhagann, tóku Atla og Jón Ármann í kennarablokkinni, mig á horninu við Dunhagann, við gengum ýmist út Dunhagann eða niður Hjarðarhagann, hittum stundum Möllu við ísbúðina og gengum svo upp í Melaskóla og fleiri bættust í hópinn. Þótt við héldum mikið saman var ég frekar á jaðrinum. Þau voru flest í A-bekknum og alltaf að læra. Ég var aldrei að læra. Ég var að kveikja elda og búa til bombur.

     Við höfðum byrjað að fikta við að drekka vorið eftir tólf ára bekk, áður en við héldum yfir í Hagaskólann, við Vimmi, Nóri - Páll Arnór Pálsson lögfræðingur, Önni - Örn Þorláksson, Gubbi, Malla og Siggi naut, sem svo var kallaður vegna vaxtarlagsins. Brennivíninu rændum við á heimilum okkar, mest ráðherravíni heima hjá Vilmundi. Þetta voru litlir skammtar, ein fingurbjörg dugði býsna langt; við þynntum bara í flöskunum. Sátum svo og hlustuðum á Shadows og röfluðum og lékum töffara.

     Þegar Melaskóla lauk var farið eftir einkunnum á fullnaðarprófi við að raða í A, B, C, D og E-bekk í Hagaskólanum. A-bekkurinn og hálfur B-bekkurinn var talinn fara í landspróf en ég var síðasti maður sem fór inn í C-bekk; hafði þar lægstu einkunn. Ég lenti sumsé í því eins og margir aðrir að flokkast undir hálfgerðan tossa. Ég var og hef alltaf verið liðtækur í stærðfræði og eðlisfræði en ofnæmið fyrir lestrinum vegna lesblindunnar smitaði yfir á annað: Það olli nánast viðbjóði á námi yfirleitt. Og vakti upp í mér þvermóðsku. Ég var því að sumu leyti tossi að eigin vali, töffaratossi. Mér fannst ég eiga undir högg sækja og eiga bágt en ég var þá, eins og ég er enn, það brynjaður að ég sneri logandi vanmetakennd upp í töffaraskap; úr því ég var tossi skyldi ég gera það dálítið merkilegt að vera tossi. Ég gleymdi námsbókunum eða týndi skólatöskunni vísvitandi eða svaraði út í hött þegar ég var tekinn upp. Gaf skít í kennarann og reyndi að skapa mér eigið sjálfstæði.

     Ég hafði aldrei hugsað út í hvað væri handan við Hagaskólann. Einu sinni eftir jól í fyrsta bekk í Hagaskóla sátum við Vilmundur heima hjá honum og ræddum um lífið og tilveruna. Pabbi hans, Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra, fór að vekja athygli okkar á að miklu máli skipti fyrir okkur að komast í menntaskóla sem ég hafði ekki einu sinni vitað að væri til. Gylfa tókst að kveikja þá hugmynd í höfði mínu að menntaskólanám gæti verið spennandi og eftirsóknavert. Orð hans urðu mér mikið umhugsunarefni og ég fór og ræddi við einn af vinsælli kennurunum við Hagaskólann, Hörð Bergmann. Hann gaf sér tíma til að fræða okkur í C-bekknum um þá valkosti sem við höfðum. Til undantekninga heyrði að fólk úr C-bekkjum færi í landspróf eða menntaskóla; C-bekkjarnám miðaðist við almennt gagnfræðanám. En Herði tókst meira að segja að gera landspróf heillandi! Hann ræddi við mig heilan eftirmiðdag. Þann eftirmiðdag ákvað ég að uppreisninni gegn náminu væri lokið, nú skyldi ég fara að læra, komast upp í B-bekk, taka landspróf og fara í menntaskóla. Um vorið hoppaði ég upp í einkunn; ég held ég hafi verið næsthæstur í bekknum eftir að hafa verið lægstur. Lesblindan var að eldast af mér og hvarf svo endanlega á braut í menntaskólanum. Þetta voru það mikil átök að ég hætti að drekka á meðan!

     Og ég náði upp í landspróf. Þar voru tveir bekkir, L- og M-bekkur. Davíð Oddsson settist með mér í M-bekkinn. Við lékum saman í leikriti sem hét Ljóti andarunginn. Ég átti að leika ráðgjafa konungs, útspekúleraðan og snjallan plottara, en Davíð einhvern spjátrung og aula og Hörður Bergmann leikstýrði. Þegar farið var að æfa kom í ljós að ég annað hvort yfirlék eða undirlék, fór rangt með textann og var alveg ómögulegur. Maðurinn sem lék aulann hafði hins vegar verið tvö ár í leiklistarskóla Ævars Kvaran og hann fór að reyna að segja mér til. Þegar Hörður sá það sagði hann: Þið skiptið bara um hlutverk. Það varð mér töluvert áfall þegar Davíð lék mig út úr aðalhlutverkinu og varð sjálfur stjarnan!

     Við Davíð kynntumst að sjálfsögðu allvel við þessa reynslu, en urðum ekki nánir vinir í landsprófinu; við vorum aðeins ágætis kunningjar. Davíð var einrænn. Spilaði aðallega fimmaurahark. Hann bjó með einstæðri móður sinni á Fálkagötunni og ég kom nokkrum sinnum heim til hans. Þau bjuggu nokkuð þröngt. Davíð var oftast í sama jakkanum og hafði lítil auraráð. Það var ekki fyrr en í Menntaskólanum í Reykjavík sem Davíð kom af alvöru inn í okkar klíku. Ég held að hann hafi haft nokkra

    skömm á þessum hópi okkar Vilmundar. Við vorum ribbaldar og alltaf að þykjast töffarar en Davíð var í öðrum málum. Hann gekk í leiklistarskóla, lék jólasvein með Katli Larsen og var í alls kyns skemmtibransa.

     En áfram með landsprófsárið: Á miðsvetrarprófinu var ég eini maðurinn í M-bekknum fyrir ofan sex í einkunn, sem þýddi að ég næði prófi, því allt undir sex var falleinkunn. Eftir það fékk ég mikilmennskubrjálæði. Við Vilmundur, sem var í L-bekknum, ákváðum að fara að skemmta okkur aftur; vorum stöðugt í partíum, vöktum fram eftir og hlustuðum á Shadows og Cliff Richard og Presley. Rafmagnsmúsíkin var að breyta heiminum og við vorum með á þeim nótum. Fyrst þegar Bítlarnir bárust til landsins fannst okkur þessir hávaðamenn til mestu óþurftar því að þeir væru að trufla vini okkar í The Shadows. En svo rakst ég á 45 snúninga plötu í Vesturveri, Not Fade Away. Utan á plötuumslaginu var mynd af druslulega klæddum og skítugum gaurum og fullyrt í baktexta að þeir hefðu allir verið reknir að heiman. Þetta voru The Rolling Stones. Klæðnaðurinn og útlitið stungu mjög í stúf við aðrar hljómsveitir á þessum tíma, sem voru flestar í úniformi, einhvers konar matrósafötum. Ég hafði fundið mína sálufélaga. Á plötuumslaginu stóð jafnframt að þeir væru í uppreisn gegn öllu því sem siðlegt þætti. Þetta var himnasending. Vilmundur var hins vegar Bítlamaður og af þeim ágreiningi spruttu heiftúðlegar deilur um hvort Stones eða Bítlarnir væru betri. Þessar deilur held ég að lýsi því sem var ólíkt í okkar skapgerð; ég dáði ögrunina í Stones, hann var rómantískur og elskaði ballöður Bítlanna.

     Um þetta leyti fór ég að þora að vanga á dansæfingunum. Vilmundur hafði dansað vangadans strax í fyrsta bekk sem þótti mikið afrek. Við fórum mest í Lídó og Breiðfirðingabúð, áttum afdrep í kjallaraherberginu mínu og heima hjá Vilmundi, bæði vegna þess að húsið var stórt, heimilið frjálslynt og foreldrar hans mikið erlendis.

     Vilmundur var í slíkri uppreisn við allt og alla að strax í fyrsta bekk í Hagaskóla lét hann raka af sér hárið nema rák á miðju höfði frá enni og aftur á hnakka að hætti indjána. Þetta var löngu fyrir Bítlana og Stones og þurfti gríðarlegt hugrekki til. Einu sinni kom Gurra mamma hans heim frá útlöndum með glænýja stælflík handa Vimma; það var apaskinnsjakki. Okkur fannst þetta rosalega smart jakki en sögðum Vilmundi að hann væri í snobbflík; hann ætti apaskinnsjakka af því hann væri ráðherrasonur. Viðbrögð Vilmundar voru honum lík. Um kvöldið, þegar hann þóttist vera orðinn fullur, velti hann sér upp úr drullupollunum í apaskinnsjakkanum og eyðilagði hann. Ég hef aldrei kynnst manni með jafn mikla uppreisn inni í sér. Við skemmtum okkur konunglega hvert einasta kvöld og fannst tilveran ein stór hátíð, eitt æðisgengið partí sem beið þess eins að við gengjum í dansinn.

     Á margan hátt eru þeir líkir menn, Vilmundur og Davíð. Vilmundur sendi frá sér meira gneistaflug; hann var maður leiftursóknar. Davíð sendir frá sér jafnara og sterkara ljós, hefur stöðuorku en Vilmundur hafði sóknarorku. En kjarninn í þeim er úr svipuðu efni. Kannski þess vegna varð ég svona náinn þeim báðum. Báðir urðu þeir óumdeildir foringjar án þess að hafa nokkuð fyrir því. Þeir voru fæddir þannig.

     Ég gekk hratt um gleðinnar dyr þetta vor, svo hratt að ég var næstum fallinn á landsprófinu. Það var sá góði kennari og textahöfundur Litlu flugunnar, Sigurður Elíasson, sem bjargaði mér frá falli.

    5. LOTA NÁTTÚRUR Móðir mín var alltaf ákaflega önnum kafin. Hún æfði á daginn og lék á kvöldin allan veturinn. Á sumrin hefði hún átt að geta sinnt okkur en í staðinn fór hún í leikferðalög út um land; það gaf drjúgar tekjur til að halda uppi lífsstílnum. Pabbi var ríkisstarfsmaður og þurfti að stunda sína vinnu frá níu til fimm. Yfir sumartímann vorum við systkinin orðin fyrir og við Þorvaldur bróðir því sendir í sveit í Skáleyjar á Breiðafirði. Foreldrar okkar hafa sjálfsagt talið að það væri hollt fyrir okkur uppeldislega að fara í sveit. Ég held að nær allir af minni kynslóð hafi upplifað að alið væri á sektarkennd yfir að vera borgarbarn. Það var nánast refsivert. Yfir hásumarið dugði ekki að slæpast um göturnar í bænum; það var óhollt. Hins vegar var hollt að elta kúarassa út í haga. Síðan hef ég verið á móti öllu sem talið er hollt; það eyðileggur yfirleitt lífsgleði manna. Oft þegar ég fer á veitingastaði spyr ég hvort ekki sé eitthvað óhollt á matseðlinum. Mér þykir óhollur matur betri en hollur og hef fyrir reglu að borða ekki það sem kallað er hollustufæði. En ég verð að viðurkenna að til langs tíma litið var sveitadvölin mér "holl"; ég bý að kynnum við líf sem ég held að fáir af minni kynslóð þekki.

     Hjá okkur hafði verið vinnukona sem hét Guðlaug Guðmundsdóttir. Hún var dóttir Guðmundar Guðmundssonar, bónda í Norðurbæ í Skáleyjum, og Júlíönu Sveinsdóttur, konu hans. Þegar hún fór heim eftir vetrardvöl á heimili okkar tók hún okkur bræðurna með sér. Ég var þá nýorðinn sex ára og Þorvaldur bróðir að verða fjögurra ára en ég sneri aftur á hverju sumri til tíu ára aldurs.

     Í Skáleyjum komum við inn í 19. öldina. Ekki var komið rafmagn á bæinn heldur notast við grútartýrur af selspiki, engar vélar heldur amboð, trétindar í hrífunum. Maturinn var það sem landið og sjórinn gáfu af sér; ekkert cheerios, nánast enginn sykur eða ostur, stundum kandís á tyllidögum. Við borðuðum aðallega egg í öllum hugsanlegum verkunarútgáfum, sel, skarf og fisk, saltaðan eða hertan. Ég man eftir rétti sem var soðinn hertur steinbítur með selspiki. Annars var notuð tólg, flot og hamsatólg. Þú getur ímyndað þér hvernig þetta orkaði á hið matvanda og lyktnæma borgarbarn. Lykt- og bragðlaukar gengu í gegnum skelfilegt víti. Ég var slík horgrind fyrst í stað að faðir minn fór að senda

Report this document

For any questions or suggestions please email
cust-service@docsford.com